Færsluflokkur: Íþróttir

Áherslur dómaranefndar - Hvernig gengur að framfylgja þeim?

Janúarfundur dómara og eftirlitsmanna var haldinn í gær, laugardaginn 8. janúar, þar sem m.a. var farið yfir áherslur dómaranefndar HSÍ og skoðaður DVD diskur með áherslum dómaranefndar EHF fyrir evrópumót karla sem haldið verður í Austurríki nú í lok janúar.

Áherslur dómaranefndar HSÍ voru skoðaðar sérstaklega með tilliti til þess hvort þyrfti að endurskoða þær eða breyta en svo reyndist ekki vera.  Eftirfarandi er umsögn um hvernig til hefur tekist að mati dómaranefndar;

ÁHERSLUR KEPPNISTÍMABILSINS
2009-2010

1.              “ÓDÝR” FRÍKÖST/VÍTAKÖST

Borið hefur á því að sum pör hafa stundum verið að dæma of mörg ódýr fríköst í stað þess að leyfa leiknum að “fljóta”.  Þegar hagnaðarreglu er beitt, þá má alls ekki beita henni þannig að leikmenn fái tvöfaldan sjéns.  Alltaf skal beita hagnaðarreglu hafi leikmaður minnsta möguleika á að láta rætast úr kasti.  Þarna er oft hárfín lína á milli þess hvort átti að dæma fríkast/vítakast eða ekki og oft er sóknarmaðurinn jafn brotlegur og varnarmaðurinn, en hann hefur verið látinn njóta vafans.

Þessi áhersla hefur gengið mjög vel.  Auðvitað gengur þetta misvel hjá pörum og það koma leikir með of mörgum fríköstum/vítaköstum, en heilt yfir þá gengur þessi áhersla mjög vel og greinilegt að yfirbragð leikja hefur gjörbreyst á milli tímabila.

2.             SÓKNARBROT

Í samanburði við alþjóðlega dómgæslu erum við að dæma of fá sóknarbrot (skref, ruðningur, ólöglegar blokkeringar) og réttur varnarmanna er ekki nægilega virtur.  Dómarar eru of ragir að dæma sóknarbrot og verða að hugleiða betur rétt varnarmanna.

Hér erum við á réttri leið og greinileg framför hjá mörgum pörum en það vantar meira samræmi á milli þeirra.  Það er einnig hægt að sjá að varnarmenn eru farnir að gera ráð fyrir sóknarbrotum og beita varnarafbrigðum sem stuðla að þeim, sem er gott, því það sýnir að við erum við farin að taka meira tillit til þeirra.  Við eigum samt talsvert í land með að ná þeim tökum sem dómaranefnd sættir sig við og því þurfum við að halda vöku okkar í hverjum einasta leik. 

3.             SKIPTIMANNASVÆÐI

Starfsmenn skulu að öllu jöfnu sitja á skiptimannabekk, en tveir starfsmenn mega standa hverju sinni þurfi þeir að sinna leikmönnum eða koma skilaboðum til sinna manna en þeir skulu þó virða mörk skiptisvæðis eins og fram kemur í reglum um skiptisvæði en þar segir meðal annars að leikmannabekkir skuli byrja 3,5m frá miðlínu (þar sem því verður við komið).  Leikmenn skulu sitja allann tímann og mega eingöngu standa þegar þeir eru að hita fyrir aftan bekk eða skipta við annann leikmann. 

Starfsmenn og leikmenn mega hvetja sitt lið frá skiptimannasvæði, en um leið og tjáning þeirra beinist gegn dómurum eða að áhorfendum, hvort sem er í orði eða með líkamstjáningu sem sýnir að dómari sé ekki, eða hafi ekki verið að gera “rétt”, þá skulu tímaverðir/ritarar eða eftirlitsmaður, eftir því sem við á, grípa inn í og gera dómurum viðvart þannig að þeir getir gripið til viðeigandi aðgerða samkvæmt reglum 16:1c, 16:3c-d og 16:6a,c (áminning, brottvísun, útilokun) samkvæmt grein 6 í reglum um skiptisvæði.

Hér erum við enn í vanda og það virðist vera erfitt fyrir dómara og eftirlitsmenn að ná tökum á hvenær þeir eiga að hafa afskipti af bekk og hvenær ekki.  Þetta er ennþá of tilviljanakennt og vantar mikið samræmi hjá okkur.  Það er alveg ljóst að "bekkurinn" fær að komast upp með of mikil afskipti af dómgæslunni í mörgum leikjum og oft er það þannig að þjálfarar virðast einbeita sér meira að dómgæslunni en eiginn liði.  Þessu þarf að snúa við og það er alveg öruggt að þjálfarar yrðu ekki sáttir ef dómarar eða eftirlitsmenn væru að skipta sér af innáskiptingum eða senda leikmönnum tóninn ef þeir klikka í dauðafæri!  Hérna þurfa menn að sýna gagnkvæma virðingu fyrir því sem gert er og dómaranefnd mun halda áfram að brýna menn í að bregðast við ef litið er framhjá því.


Háttvísi

Nú að undanförnu hafa komið upp tvö tilvik þar sem menn gæta ekki háttvísi (Fair play) í leik.  Fyrra tilvikið var í leik Vals og Hauka þar sem sóknarmaður Hauka truflaði töku frumkasts á lokasekúndum og hitt tilvikið var í leik Gróttu og Fram þar sem varnarmaður notar "júggann" á sóknarmann þegar hann fer inn úr horni.

Það sem er alvarlegt við þessi tvö tilvik er að framkoma leikmanns Hauka þykir sjálfsögð og menn hika ekki við að beita "grófri óíþróttamannlegri framkomu" á lokasekúndum leiks og í hinu tilvikinu þykir leikmanninum ekkert athugavert við að beita "júgganum" og lætur sér í léttu rúmi liggja að hér er um stórhættulegt brot að ræða.

Þegar svona er komið þurfum við að endurskoða reglur og viðurlög við brotum af þessu tagi.  Hér vantar umræðu og fræðslu varðandi svona atvik.  Leikmaður Fram var ekki fæddur þegar fræga myndinn náðist af "júggabragðinu" í leik Íslands og Júgóslavíu 1987.  Í framhaldi af því var reglunum breytt og ströng viðurlög við brotum af þessu tagi voru sett enda hefur ekki borið á þeim fyrr en í umræddum leik.  Ég geri ráð fyrir að leikmaður viti ekki í barnaskap sínum hversu alvarlegt þetta er og því þurfa þjálfarar að vera duglegir að fræða sína leikmenn og uppræta svona brot.  Atvikið í leik Vals og Hauka kallar á endurskoðun reglna og hugarfars.  Það er búið að samþykkja nýjar alþjóðareglur í handboltanum sem taka gildi eftir þetta keppnistímabil og þar er ekkert fjallað um breytingar á reglum við brotum af þessu tagi.  HSÍ getur sett sínar eiginn reglur sem taka á þessum brotum en þar ber að fara varlega og menn mega ekki missa sjónar sjálfsagðri háttvísi.


Dómarar veikjast líka....

Dómaranefnd hefur lent í miklu basli með að raða dómurum á leiki að undanförnu vegna veikinda.  Nokkrir einstaklingar hafa nú verið veikir í á þriðju viku og höfum við þurft að endurraða dómurum talsvert vegna þess.  Það hefur þó ekki komið að sök og hafa dómararnir verið að standa sig mjög vel það sem af er. 

Það er búið að vera eftirlit á 18 leikjum það sem af er og miðað við áherslurnar sem við settum í upphafi tímabilsins virðast dómararnir ná nokkuð góðum tökum á þeim.  Sóknarbrotin eru þó ennþá "Akkilesarhæll" en þó betri en í fyrra.  Ódýru fríköstin eru mikið til horfin en það vantar betri samræmingu í vítaköstin.  Skiptimannasvæðin hafa svo að mestu leyti verið í lagi en það má ákaflega lítið útaf bregða þar þannig að dómararnir "gleymi sér".


Alvarlegar ásakanir

Það gekk greinilega mikið á hjá Fram í seinni leiknum á móti Tatran Presov.  Þetta hefur verið "hörku"leikur.  Framarar með 6 brottvísanir + 1 brottvísun á bekkin + 3 rauð spjöld (þar af 2 á síðustu mínútunum) og Tatran Presov með 6 brottvísanir.  Framararnir voru ekki ánægðir með dómgæsluna og við bíðum spennt eftir að sjá leikinn á DVD til að greina hann og sjá hvernig dómararnir "léku" Framarana.  Eitthvað virðist vörnin hafa "lekið" hjá Fram því Tatran fékk 8 víti en Fram ekkert. 

Það er auðvelt að sjá hvort dómararnir voru að standa sig í leiknum með því að skoða DVD og lítið við því að gera annað en að skila þeirri niðurstöðu til EHF og láta þá taka á málinu gagnvart dómurunum.  Það er fúlt, en eina leiðin því ekki er hægt að kæra ákvarðanir dómara sem byggðar eru á mati þeirra í leiknum sjálfum. 

Öllu alvarlegri eru ásakanir Framara um meinta mútuþægni dómarana og vonandi hafa þeir gögn sem geta sannað það.  Að saka menn um mútuþægni án þess að hafa fyrir því sannanir er högg fyrir neðan beltisstað og ég vona svo sannarlega, úr því sem komið er, að Framarar eigi innistæðu fyrir þessum ásökunum.


Fjörið byrjar á morgun

Íslandsmótið í N1 deild kvenna hefst á morgun með fjórum leikjum og karlarnir byrja síðan á miðvikudag.  Dómarar hafa fengið langan undirbúning vegna þess hve seint mótin byrja og koma vonandi vel undirbúnir til leiks.  Nú í ár erum við með 20 pör sem er 6 pörum meira en í fyrra en ættum að vera með 24 pör ef öll félög stæðu sig í að útvega dómara. 

Félögin virðast vera að vakna til vitundar um að án dómara verður enginn leikur og eru sum hver að vakna af Þyrnirósarsvefni.  Í fyrra tókst okkur að útskrifa 158 nýja dómara í yngstu flokkum og nú í haust var námskeið fyrir C-stigs dómara (efsta stig) þar sem 8 nýjir dómarar þreyttu próf. 

Það var einnig haldið námskeið fyrir ritara og tímaverði í síðustu viku þar sem mættu 31 frá flestum félögum.  Slík námskeið hafa ekki verið haldin í nokkurn tíma og var orðinn full þörf á því.  Einn 200 leikja tímavörðurinn sem aldrei hafði farið á námskeið og hélt að hann þyrfti nú ekki á því að halda var meira að segja mjög ánægður og uppgötvaði fullt af atriðum sem hann hélt að væru öðruvísi í reglunum.

 Þjálfarafundur var einnig haldinn í gær þar sem mættu 19 þjálfarar og farið var yfir áherslur vetrarins, samskipti dómara og þjálfara/leikmanna og kunnáttu þjálfara á leikreglunum.  Fundurinn tókst vel og kom í ljós að sumir þjálfarar þurfa að skerpa á reglukunnáttu sinni, en enginn þeirra hafði allar 20 spurningarnar réttar og fimm þeirra voru með 15 eða fleiri réttar.  Þetta sannar að þjálfararnir þurfa rétt eins og dómararnir að rifja upp leikreglurnar öðru hvoru en það skal tekið fram að dómarar fara tvisvar á ári í leikreglupróf og þurfa að skila 80% kunnáttu í hvert skipti.

Ég vil óska öllum dómurum velfarnaðar á komandi keppnistímabili og minni á áherslurnar sem við leggjum upp með.  Ég veit að þið eigið eftir að gera fullt af mistökum, rétt eins og leikmennirnir og það er viðurkennt að 5-10 mistök í leik er allt í lagi.  Rifjið upp til hvers þið ætlist af þjálfurum og leikmönnum og til hvers þeir ætlast af ykkur og ef ykkur tekst að framfylgja því þá hef ég engar áhyggjur.

 


Áherslur næsta keppnistímabils

Dómaranefnd hefur gefið út áherslur keppnistímabilsins og farið yfir þær með dómurum og þjálfurum í efstu deildum.  Áherslum hefur verið fækkað úr fimm í þrjár til að auðvelda dómurum að einbeita sér að þeim en áherslurnar eru að stofni til þær sömu og í fyrra með smá áherslubreytingum.  Í fyrra gekk verst að halda utan um skiptimannasvæðið en þar leyfðu dómarar og eftirlitsmenn allt of mikla afskiptasemi starfsmanna liða og leikmanna á skiptisvæði af dómgæslunni og er það orðinn ljótur ávani sem ber að taka á.  Hér að neðan er texti sem sendur hefur verið til allra dómara, eftirlitsmanna og þjálfara liða.

ÁHERSLUR KEPPNISTÍMABILSINS
2009-2010

1.              “ÓDÝR” FRÍKÖST/VÍTAKÖST

Borið hefur á því að sum pör hafa stundum verið að dæma of mörg ódýr fríköst í stað þess að leyfa leiknum að “fljóta”.  Þegar hagnaðarreglu er beitt, þá má alls ekki beita henni þannig að leikmenn fái tvöfaldan sjéns.  Alltaf skal beita hagnaðarreglu hafi leikmaður minnsta möguleika á að láta rætast úr kasti.  Þarna er oft hárfín lína á milli þess hvort átti að dæma fríkast/vítakast eða ekki og oft er sóknarmaðurinn jafn brotlegur og varnarmaðurinn, en hann hefur verið látinn njóta vafans.

2.             SÓKNARBROT

Í samanburði við alþjóðlega dómgæslu erum við að dæma of fá sóknarbrot (skref, ruðningur, ólöglegar blokkeringar) og réttur varnarmanna er ekki nægilega virtur.  Dómarar eru of ragir að dæma sóknarbrot og verða að hugleiða betur rétt varnarmanna.

3.             SKIPTIMANNASVÆÐI

Starfsmenn skulu að öllu jöfnu sitja á skiptimannabekk, en tveir starfsmenn mega standa hverju sinni þurfi þeir að sinna leikmönnum eða koma skilaboðum til sinna manna en þeir skulu þó virða mörk skiptisvæðis eins og fram kemur í reglum um skiptisvæði en þar segir meðal annars að leikmannabekkir skuli byrja 3,5m frá miðlínu (þar sem því verður við komið).  Leikmenn skulu sitja allann tímann og mega eingöngu standa þegar þeir eru að hita fyrir aftan bekk eða skipta við annann leikmann. 

Starfsmenn og leikmenn mega hvetja sitt lið frá skiptimannasvæði, en um leið og tjáning þeirra beinist gegn dómurum eða að áhorfendum, hvort sem er í orði eða með líkamstjáningu sem sýnir að dómari sé ekki, eða hafi ekki verið að gera “rétt”, þá skulu tímaverðir/ritarar eða eftirlitsmaður, eftir því sem við á, grípa inn í og gera dómurum viðvart þannig að þeir getir gripið til viðeigandi aðgerða samkvæmt reglum 16:1c, 16:3c-d og 16:6a,c (áminning, brottvísun, útilokun) samkvæmt grein 6 í reglum um skiptisvæði.

 Eftirlitsmönnum verður uppálagt að fylgjast með því að dómarar virði þessar áherslur og beiti þeim í leikjum.  Geri dómarar það ekki þá skal senda dómaranefnd, domaranefnd@hsi.is, upplýsingar um málið.  Þjálfarar verða einnig hvattir til að gera slíkt hið sama.

 


Formannafundur dómaranefnda á Norðurlöndum

Um bikarhelgina var haldinn fundur formanna dómaranefnda á Norðurlöndum hér í Reykjavík.  Formenn allra Norðurlandanna mætti fyrir utan formann dönsku nefndarinnar en hann sendi fulltrúa sinn, Bjarne Munk Jensen, sem nýlega tók sæti í TRC (Technical Referee Commitee) á vegum EHF.  Hér er um árlegan fund að ræða þar sem tekin eru fyrir mál sem eru efst á baugi hverju sinni, svo sem túlkun reglna, menntunar- og fræðslumál dómara og eftirlitsmanna, aðbúnaður og umhverfi dómara, dómaraskipti og agamála dómara og eftirlitsmanna.  Þar má nefna meðal annars að Norðurlöndin, fyrir utan Ísland, hafa verið að skiptast á dómurum til að dæma í efstu deildum hvers lands.  Danir hafa að vísu bara gert það þannig að þeir hafa bara sent dómara en dönsku félögin hafa ekki viljað erlenda dómara í sína deildarkeppni.  Við höfum hug á því að taka þátt í þessu samstarfi og ég þykist nokkuð viss um að íslensku félögin vilji taka þátt í því miðað við umræðuna um dómaramál hér á landi á undanförnum dögum, mánuðum og árum.

Hluti af dagskrá fundarins var að samræma störf eftirlitsmanna og tókum við því allir þátt í að fylgjast með bikarleikjunum í meistaraflokki karla og kvenna og fylltum út hefðbundnar eftirlitsskýrslum um mat okkar á frammistöðu dómarana.  Það sem vakti furðu félaga minna á Norðurlöndunum var hegðun starfsmanna á skiptisvæðum í karlaleiknum og undruðust þeir að þetta skyldi látið viðgangast.  Þeir sögðu að þessi framkoma yrði aldrei liðin hjá þeim og það hefði átt að vera búið að gefa amk útilokun á annan bekkinn miðað við framkomu þeirra.  Þetta staðfestir aðeins það sem við höfum verið að berjast við hér á landi og við megum ekki láta deigann síga í þeirri baráttu.

 


Toppdómgæsla

Leik Þjóðverja og Rússa á HM í Króatíu var að ljúka með jafntefli 26-26.  Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á RÚV og þar urðum við vitni að toppdómgæslu eða dómgæslu eins og hún gerist allra best.  Það var hrein unun að fylgjast með vinnubrögðum dönsku dómaranna Gjeding/Hansen þar sem þeir voru allann tímann samkvæmir sjálfum sér og létu aldrei slá sig út af laginu.  Ég veit ekki hvort talsambandið í leiknum bætir dómgæsluna en það verður fróðlegt að fylgjast með fréttum um það.  Það kemur mér þó á óvart að þegar ég var að skoða tilnefningar á leiki dagsins að ég sá aðeins tvö pör frá Norðurlöndunum og þau voru bæði dönsk !!

Viggó og störf eftirlitsmanna

Ég vil byrja þennan pistil á því að óska öllum Frömurum til hamingju með deildarbikarameistaratitilinn sem þeir unnu svo sannfærandi í gær. Þeir sýndu frábæran leik en enginn var þó betri en Magnús markmaður sem hreinlega "át" marga af leikmönnum Hauka í gær. Liðið í heild sýndi skemmtilegan karakter með smá undantekningu þó þar sem ég verð að undanskilja Viggó, þjálfara liðsins.

Viggó er frábær þjálfari sem hefur náð frábærum árangri en hann hefur einn stóran löst og það er að agnúast út í dómara, og eftirlitsmann þegar það á við, frá fyrstu mínútu leikja til hinnar síðustu ef hann fær tækifæri til þess. Sumir hafa nefnt að þetta sé hluti af hans leikskipulagi til að örva leikmenn og jafnvel að koma dómurum úr jafnvægi þannig að vafaatriðin lendi hans megin. Það má vel vera að svo sé og hann hefur ekki gert neitt rangt gagnvart dómurum með því að beita þeirri aðferð því hann gengur eins langt og dómarar og eftirlitsmenn leyfa hverju sinni.

Áður en lengra er haldið vil ég benda á reglur um skiptisvæði sem finna má á heimasíðu HSÍ

http://www.hsi.is/files/3299-0.pdf

Þar eru störf eftirlitsmanna ágætlega skilgreind svo og hvað starfsmönnum liðs er heimilt og óheimilt á meðan leik stendur. Mér þykir rétt að vekja athygli á þessu vegna þess að Viggó sá ástæðu til að nefna nafn mitt í viðtali við RÚV eftir úrslitaleikinn í gær og lét í veðri vaka að ég væri að skipta mér af hlutum í leiknum sem ég hefði ekki heimild til að gera sem eftirlitsmaður. Það er þó alveg ljóst samkvæmt reglunum að mín heimild sem eftirlitsmanns náði vel yfir það sem ég gerði í gær og ef eitthvað var út á mín störf að setja þá var það helst langlundargeð mitt gagnvart framkomu Viggós og tveggja leikmanna hans á bekknum á meðan á leik stóð.

Nú í haust voru félögunum kynntar nokkrar áherslur dómaranefndar fyrir komandi tímabil. Þar var meðal annars lögð áhersla á skiptimannasvæðið og hvernig ætti að taka á því. Nú er svo komið að við þurfum að endurskoða þessar áherslur miðað við reynslu okkar það sem af er vetri. Ég mun leggja til í dómaranefnd að hér eftir verði reglum um skiptisvæði fylgt algjörlega eftir þannig að ef eftirfarandi regla verður brotin af minnsta tilefni þá verði beitt viðeigandi refsingu;

Starfsmönnum liðs og leikmönnumer óheimilt að:

- trufla eða móðga dómara, eftirlitsmann, tímavörð/ritara, starfsmenn liðs eða áhorfendur með ögrandi framferði, mót- mælum eða annarri óíþróttamannslegri framkomu (tali, svip- brigðum eða látbragði).

Gagnvart heildinni breytir þetta sáralitlu því flest félög hafa tileinkað sér þessar reglur og fara eftir þeim en við þurfum greinilega að gæta meira jafnræðis og lagfæra áherslur okkar til að ná því.  Það er alveg ljóst að þetta verður erfitt fyrir dómara og eftirlitsmenn í fyrstu meðan við erum að ná tökum á þessu og það verður eflaust líka erfitt fyrir viðkomandi þjálfara, starfsmenn og leikmenn að mega ekki "tuða" og sýna skoðun sína á frammistöðu dómara með "ögrandi" látbragði en stundum eru hlutirnir þannig að ef ekki er hægt að gæta meðalhófs í framkomu þá verða menn að nota til ítrasta þær reglur sem þeim eru settar. 


Að koma sér upp þykkum skráp

Ég sá þrjá af fjórum leikjum í deildarbikarkeppninni í gær og varð ekki fyrir vonbrigðum með handboltann sem þar var sýndur þó liðin væru mislengi í gang eftir steik og hvíld. Allir leikirnir höfðu sinn sjarma, miklar sveiflur, drama, mistök (nóg af þeim) og glæsileg mörk.

Mínir menn stóðu sig misvel, eins og gengur, og þurftu ekki bara að takast á við hefðbundinn leikbrot heldur þurftu þeir líka að kljást við sagnfræði og fordóma. Þegar svo er komið þá minnkar sjáfstraust manna og þegar barið er á því í sextíu mínútur án nokkurrar miskunnar þá getur ekki farið vel. Auðvitað þurfa dómarar að hafa þykkan skráp til að standa af sér allar "vitsugurnar" en stundum bresta þær varnir og þá þarf að byggja þær upp aftur.

Við eigum 6-8 pör sem geta dæmt leiki í N1 deild karla og við megum ekki við því að missa neitt þeirra. Það er erfitt að dæma oft hjá sömu liðunum en það er óhjákvæmilegt þegar við eigum ekki fleiri pör. Við megum því ekki vera að "nudda" og rifja upp alla "slæmu" leikina hjá viðkomandi pari áður en leikur hefst og komast ekki upp úr farinu "manstu í síðasta leik þegar.........." þannig að dómararnir fá ekki einu sinni tækifæri til að tileinka sér að það er kominn nýr leikur sem þeir þurfa að einbeita sér að. Það hefur aldrei verið talinn góð "lenska" hjá íþróttamönnum að vera alltaf að velta sér upp úr mistökum í síðasta leik og því ættu þeir þá að vera velta dómurunum upp úr þeim? Er það til að æsa þá upp og gera þá andsnúna sér? Eða er það aðeins "vinaleg" ábending til þeirra til að minna þá á að þeir hafi ekkert lært frá því í síðasta leik? Látum nú af þessum ósið og gefið mínum mönnum sjéns á að vinna vinnuna sína án stöðugs áreitis því dómgæslan batnar örugglega ekki við það.

Við eigum í dag fjögur lið í N1 deild karla sem eru til fyrirmyndar varðandi stjórnun bekkja og framkomu við dómara. Þau eru gagnrýnin en beita henni á réttan hátt í leikjum og eftir þá. Þessi lið vita líka að þau fá engu breytt um það sem búið er að gera á leikvellinum og einbeita sér þess í stað að því sem framundan er, þannig að orkan og "vitið" fari í leikinn í stað þess að beina því að dómurunum.

Látum það nú verða okkar áramótaheit að búa til fleiri dómara og hlúa betur að þeim. Það er gaman og gefandi að vera dómari þegar skrápurinn er kominn á sinn stað en við þurfum líka að gefa hinum tækifæri til að búa hann til.


Næsta síða »

Um bloggið

Dómaranefnd HSÍ

Höfundur

Guðjón Leifur Sigurðsson
Guðjón Leifur Sigurðsson
Höfundur er formaður dómaranefndar HSÍ, fyrrverandi dómari eftir 32 ár, þar af 15 ár alþjóðadómari, núverandi eftirlitsmaður HSÍ og EHF, rafmagnsiðnfræðingur með lýsingarhönnun sem sérsvið, giftur síðan 1976, faðir tveggja dætra og afi.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Þrekpróf 2007

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband