Bikarmeistarar unglingaflokks karla í handbolta

Í gær sá ég í fyrsta skipti karlalið FH sem búið er að vinna alla titla bæði hérlendis og erlendis sem þeir hafa haft færi á.  Ég er búinn að heyra af þeim og lesa um þá í gegnum árin þó þeir séu aðeins í kringum 18 ára aldurinn.  Ég var í Drammen fyrir tveim vikum og þar lýstu menn aðdáun sinni á þessum drengjum og því þótti mér ástæða til að fara í Höllina og sjá þá.  Ég get ekki setið á mér að lýsa yfir aðdáun minni á þessum drengjum og það liggur við að ég skammist mín að hafa ekki séð þá fyrr.  Það sem vakti fyrst og fremst aðdáun mína, fyrir utan hvað þeir eru góðir í handbolta, var hvað þeir voru agaðir og yfirvegaðir í öllum sínum aðgerðum.  Oft hef ég séð drengi í þessum aldursflokki æsa sig upp af minna tilefni en þeir fengu í gær, en þeir létu það ekkert á sig fá og mótmæltu aldrei dómum eða þeirri meðferð sem þeir fengu hjá andstæðingunum.  Ég vil líka hrósa Stjörnumönnum sem sýndu mjög góðan og drengilegan leik í gær og börðust vel þrátt fyrir að við ofurefli væri að etja.  Ef rétt er að málum staðið og vel verður haldið utan um þessa drengi þá er framtíðin björt í íslenskum handbolta og það er langt síðan við höfum átt slíkan hóp sem vekur mikla athygli, bæði hérlendis sem og erlendis.  Þarna eru komnir drengir sem kunna ekkert annað en að vinna og það á eftir að skila sér síðar.  Ég hlakka mikið til að fylgjast með þeim á næstu árum!!

Dómarar í bikarúrslitum

Nú um næstu helgi fara fram bikarúrslit í mfl. karla og kvenna.  Búið er að tilnefna dómara á báða leikina og munu þeir Ingvar og Jónas dæma úrslitaleik kvenna og Arnar og Svavar úrslitaleik karla. 

Margir munu eflaust spyrja afhverju ekki þau pör sem hafa verið valinn bestu dómararnir í N1 deildinni og er því til að svara að þau komu vissulega til greina en eru bæði upptekin.  Anton og Hlynur verða að dæma leik Flensburg og Portland í meistarakeppninni og Valgeir verður á árshátíð með konu sinni í London um helgina. 

Ingvar og Jónas fengu nú í haust EHF réttindi sem dómarar og hafa verið að standa ágætlega í vetur.  Þeir eru báðir Frammarar og því var sjálfgefið að þeir dæmdu kvennaleikinn. 

Arnar og Svavar hafa undanfarin ár verið í EHF Young Referee Project sem er prógram fyrir unga og efnilega dómara og luku því ferli síðasta sumar með því að dæma úrslitaleik um fyrsta sætið á Ólympíuleikum æskunnar.  Þeir félagar hafa verið að standa sig mjög vel nú í vetur og hafa sýnt mestu framfarirnar af þeim pörum sem hafa verið að dæma í vetur.  Persónulega hefði ég viljað bíða í eitt ár enn, áður en þeir færu í úrslitaleik bikarkeppninnar, en ég er þess fullviss að þeir eiga eftir að standa sig vel.  Umgjörð leiksins er spennuþrungin og á undirritaður eflaust einhvern þátt í því sem dómari í bikarúrslitaleik fyrir 10 árum :)  En ég veit að þeim verður gefinn vinnufriður, því það er jú grundvöllur þess að hægt sé að rækja sín störf á sem bestann hátt, því við höfum góða þjálfara og aðstoðarmenn sem munu kappkosta að láta handboltann njóta sín.


Það er ekki framlenging í Evrópukeppni

Ég er búinn að vera erlendis síðan á miðvikudag í síðustu viku og hef því ekki getað fylgst eins vel með handboltanum hér heima og ég hefði viljað ásamt öllum þeim umfjöllunum sem hafa verið um ýmis mál tengd honum.  Ég var að fletta blöðunum og sá þá að öll blöðin skrifuðu að Frammarar hefðu verið óheppnir að komast ekki í framlengingu í leik sínum í Rúmeníu.  Umfjöllun þessi kemur mér á óvart og mér sýnist hún koma frá heimildarmönnum sem voru staddir í Rúmeníu.  Í Evrópuleikjum er EKKI beitt framlengingu ef liðin eru jöfn að markatölu að loknum tveim leikjum heldur vítakastkeppni.  Til þess að svo megi verða þá þurfa liðin að skora jafn mörg mörk á heima- og útivelli.  Fyrri leikurinn var heimaleikur Fram og fór hann 26-24 fyrir Rúmena.  Til þess að fá vítakastkeppni þá þurfti seinni leikurinn líka að fara 26-24 fyrir Fram.  Ef Fram hefði unnið 25-23 þá hefðu Rúmenar farið áfram með því að skora fleiri mörk á "útivelli".  Þessar upplýsingar eiga að koma fram á tæknifundi sem haldinn er fyrir alla leiki og það er hlutverk eftirlitsmanna EHF að upplýsa og fara yfir þessar reglur á þeim fundum.  Ég var eftirlitsmaður í gær á leik Drammen og Magdeburg í bikarkeppni EHF og á laugardaginn var farið yfir þessi mál á tæknifundi.  Ég varð að vísu var við það að það voru ekki allir með þessi mál á hreinu og það sýnir okkur að það er full þörf á því að lesa reglurnar öðru hvoru.

Sóknarbrot - Löglegt ofbeldi?

Í vetur hefur borið á því að sóknarmenn sem hafa sótt maður á móti manni hafi tekið "yfirfintu" þannig að olnbogi þeirra hefur farið í andlit varnarmanns og þannig (stór)skaðað viðkomandi varnarmann.  Við sáum þetta nokkrum sinnum á EM þar sem m.a. Karabatic gekk frá tveim Svíum og í úrslitaleiknum tókst einum Dananum að ganga að mestu frá Metletic.  Í engu þessarra tilvika gripu dómararnir inní og virtist það fara framhjá þeim í öllum tilfellum.  Að minnsta kosti einn leikmaður hefur farið illa út úr slíku broti hér á landi í vetur og hefur ekki getað leikið handbolta nú í nokkra mánuði.  Þarna er kominn ný tegund brota sem ekki hefur sést mikið af áður.  Ég er alls ekki að segja að þetta sé gert viljandi en það skiptir í raun ekki máli og það á að refsa sóknarmönnum jafnt sem varnarmönnum fyrir að slá andstæðing í háls eða höfuð með útilokun (rautt spjald) hvort sem það er viljandi eða óviljandi.  Ef um grófa líkamlega árás er að ræða þar sem augljóslega er verið að meiða menn þá skal beita brottvikningu (krossinn).  Ef sami maður er farinn að gera þetta oftar en einu sinni þá er ekki hægt að flokka það sem slys eða óviljaverk og verða dómarar að bregðast við því á viðeigandi hátt.

Sóknarbrot - Hvar stöndum við?

Mönnum í EM-stofu og lýsendum RÚV hefur orðið mjög tíðrætt um "nýja línu" í sóknarbrotum í áherslum dómara á EM.   Ég er á því að okkar menn séu óvanir því að sjá dæmd sóknarbrot í sama mæli og á þessu móti og þess vegna þyki þeim þetta ný lína.  Mönnum virðist líka þessi "lína" misjafnlega en eru þó almennt sáttir við hana með örfáum undantekningum þó.  Á undanförnum árum höfum við séð skandinavíska dómara halda þessarri línu, sérstaklega norska og danska, og höfum oft rætt að við þyrftum að bæta okkur.  Ég tel að þetta sé einungis hluti af þróun boltans og við höfum setið aðeins eftir. 

Við lögðum sérstaka áherslu á sóknarbrot í upphafi keppnistímabilsins vegna þess að íslenskir dómarar dæma of lítið af sóknarbrotum og miðað við alþjóðaboltann þá erum við langt á eftir.  Hér á landi er réttur varnarmannsins ekki virtur nægilega og erum við að reyna að bæta úr því. 


Er reglukunnáttan virkilega svona slæm?

Ég verð að taka fyrir tvö atriði úr leikjum Evrópukeppninnar þar sem lýsendur RÚV lýsa fullkominni vankunnáttu á reglunum.  Í gær voru þeir að lýsa leik Svía og Frakka á netinu og skildu ekkert í því þegar dæmdur var ruðningur á leikmann sem hljóp á varnarmann eftir að hann var búinn að losa sig við boltann.  Þá kom þessi gullvæga setning ".. en hann var búinn að losa sig við boltann!!"

Í reglu 8 segir m.a.
Það er óheimilt að:
a) toga eða slá boltann úr hendi mótherja,
b) hindra eða þvinga mótherja frá með handleggjum, höndum eða fótleggjum,
c) hemja, halda, ýta, hlaupa eða stökkva á mótherja
d) trufla, hefta eða stofna mótherja í hættu (með eða án knattar) í trássi við leikreglur.

Þarna segir ekkert um að leikmaðurinn verði að vera með boltann í hendi til að fá dæmdan á sig ruðning.  Þetta er kannski lýsandi fyrir það að við dæmum of fá sóknarbrot og leikmenn þekkja þau ekki þegar þau eru dæmd.

Í dag var svo leikur Íslendinga og Frakka og þar hefðu Frakkar átt að fá tvær útilokanir (rauð spjöld) en fengu aðeins eina.  Í upphafi leiks misstu dómararnir af broti þar sem Frakkinn setti olnbogann í háls Einars og átti klárlega að fá útilokun.  Lýsendurnir voru sammála því og töldu réttilega að þarna hefðu dómararnir misst af því.  Síðar í leiknum fær einn Frakkinn útilokun fyrir að brjóta slysalega á Alex í hraðaupphlaupi og fær réttilega útilokun.  Þetta fannst lýsendum mjög óréttlátt þar sem ekki var um grófa líkamsárás að ræða.  Við skulum rifja reglurnar upp;

Regla 8:5
Leikmaður sem
stofnar heilsu mótherja í hættu með árás skal sæta útilokun frá leik (16:6c) einkum ef hann:

a) frá hlið eða aftan frá, slær eða togar í skothönd leikmanns sem er að kasta boltanum eða senda hann,
b) veldur því að mótherji verður fyrir höggi á höfuð eða háls,
c) viljandi veitir mótherja högg á líkama með fæti eða hné eða með einhverjum öðrum hætti, svo sem að bregða fyrir hann fæti.
d) hrindir mótherja sem er að hlaupa eða stökkva, eða ræðst þannig að honum að mótherji missir jafnvægið; þetta á einnig við þegar markvörður kemur út fyrir markteig í skyndisókn mótherja;
e) skýtur aukakasti að marki í höfuð varnarmanns og gerir ráð fyrir að varnarmaður hreyfi sig ekki, eða skýtur í höfuð markvarðar úr vítakasti og gerir ráð fyrir að markvörður hreyfi sig ekki.

Ég tel einsýnt að menn þurfi að rifja reglurnar upp því það er jú hlustað á sérfræðingana þegar þeir lýsa leikjum og það getur verið ótrúlega erfitt að vinda ofan af "misskilningi".

Mér fannst pólsku dómararnir í dag ekki standa sig vel en kem kannski síðar að því hversvegna mér fannst það. 


Reglukunnátta lýsenda á RÚV

Oft hefur manni blöskrað "bullið" í lýsendum fjölmiðla þegar þeir eru að tjá sig varðandi reglukunnáttu við lýsingu á leikjum.  Um leið og maður brosir út í annað þá gremst manni fákunnátta þeirra og "boðskapurinn" á greiða leið til þeirra sem eru að fylgjast með.  

Í leik Íslendinga og Slóvaka núna áðan þá dæmdu dómararnir víti á Sigfús fyrir að verjast skoti innan úr markteig.   Adolf Ingi og Ólafur töldu að Sigfús hefði stokkið upp úr teignum og því hefði átt að dæma víti, sem er alveg rétt.  Við endursýningu má sjá greinilega að Sigfús stekkur upp fyrir utan markteig og verst skotinu í loftinu yfir markteignum sem er fullkomlega löglegt.  En þeir félagarnir sannfærðu hvorn annan um að það mætti ekki og því væri vítið réttur dómur.  Reglurnar eru alveg skýrar; bolti sem er í loftinu yfir markteig eða skoppar innan markteigs er í leik þangað til markvörðurinn hefur náð stjórn á honum og á sama hátt mega varnar- og sóknarmenn stökkva inn í markteig til að skora eða verjast svo framarlega sem þeir snerta ekki markteiginn í uppstökkinu.  Ég fyrirgef Adolfi Inga vankunnáttuna en mér finnst að Ólafur hefði átt að vita betur.

Austurrísku dómararnir stóðu sig mjög vel í þessum leik.  Þeir voru samkvæmir sjálfum sér, voru harðir á vítadómum og peysutogi, leikleysan var í fínu lagi en þeir gáfu mönnum þó heldur langan séns eftir að höndin var komin upp.  Það var gott flot í leiknum og lítið um ódýr fríköst en þau sáust þó.  Þeirra lína var önnur en dönsku dómarana og ég er ekki frá því að hún eigi betur við okkar menn.


EM - Danskir dómarar í Svíaleiknum

Félagar mínir þeir Olesen/Pedersen DEN dæmdu fyrsta leik okkar á EM að þessu sinni.  Þeir dæmdu leik okkar við Frakka á síðasta HM sællar minningar og í leiknum í gær var svo sem ekki að sjá að mikið hefði breyst hjá þeim.  Þeirra lína er dálítið óljós og þeir eiga það oft til að koma með dóma sem erfitt er að skilja nema leggjast í meiri rannsóknarvinnu.  Þeir eru nokkuð samkvæmir sjálfum sér í sóknarbrotum og leikleysu, skrefin voru dæmd en..... og stighækkandi refsingar voru úr og í hjá þeim.  Þessir strákar eru ágætir dómarar og hafa bætt sig mikið í gegnum árin en þeir hafa sinn karakter í dómgæslu sem er mjög ólíkur þeim sem við sáum hjá Mortensen/Pedersen um síðustu helgi.  Þeirra dómgæsla breytti engu gagnvart okkar mönnum og hún hafði enginn áhrif á leikinn sem slíkan en ég hef séð þá gera betur.

Reisinger/Kaschütz AUT fá sinn fyrsta leik í mótinu á morgun þegar við spilum við Slóvaka.  Þetta eru miklir reynsluboltar sem hafa marga hildina háð og margoft dæmt hjá okkar mönnum.  Ég á ekki von á öðru en að þeir standi sig vel og bíð frekar spenntur eftir "þeirra línu" í mótinu.


Danska dómgæslan

Nú um helgina fengum við góða gesti frá Danmörku til að dæma leiki Íslendinga og Tékka, en það voru þeir félagarnir Claus og Henrik sem voru kosnir dómarapar ársins í Danmörku keppnistímabilið 2006-2007.  Þeir félagarnir fá mörg verkefni og eru mikið á faraldsfæti.  Þeir búa í yfir 200 km fjarlægð hvor frá öðrum í Danmörku og það gerir það að verkum að þeir eru talsvert að heiman.  Þeir voru hér fyrir þrem árum að dæma Evrópuleik og komu núna með eiginkonur sínar, en þeir voru búnir að heita þeim því að ef þeir fengju tækifæri til að dæma aftur á Íslandi þá myndu þeir reyna hvað þeir gætu að koma þeim með.  Þeir hafa hrifist mikið af landi og þjóð og þykir mikil upphefð að fá að koma hingað og dæma. 

Ég fylgdist með þeim dæma báða leikina og hreifst talsvert af þeirra vinnulagi og hvað þeir höfðu góð tök á leikjunum.  Þessir strákar eru fagmenn fram í fingurgóma, sjálfsöruggir og hafa geysilega gaman af því sem þeir eru að gera.  Margt í dómgæslu þeirra var ekkert betra en gengur og gerist, en það sem stóð upp úr var samvinna, bendingar, flaut, beiting hagnaðarreglu, sóknarbrot og tjáskipti við leikmenn, þjálfara og ritaraborð.  Allt eru þetta atriði sem gera það að verkum að þeir eiga auðveldara með að stjórna leiknum og fá alla til að sætta sig við mistök öðru hvoru.  Þeir lögðu línu sem þeir héldu allann leikinn, meira að segja í atriðum sem þeir voru ekki að standa sig í, svo sem skrefum, peysutogi og átökum á línu sem þeim gekk erfiðlega að ná böndum á.  Það má fara langt á brosinu og með því að sýna öllum að það er gaman að vera dómari.


Áherslur dómaranefndar

ÁHERSLUR KEPPNISTÍMABILSINS
2007-2008

1.             VÍTI + STIGHÆKKANDI REFSING

Stighækkandi refsingu, oftast 2ja mín brottvísun, er of oft beitt þegar vítaköst eru dæmd á lið.  Dómarar þurfa að taka meira tillit til þess hvort verið er að reyna að ná bolta eða hvort engin tilraun er gerð til þess og meta stighækkandi refsingu út frá því.  Sá dómari sem dæmir vítið skal að öllu jöfnu ákveða hvort einnig skuli beita stighækkandi refsingu.

FYRRI HLUTI MÓTS Í LAGI

2.             HRÖÐ FRUMKÖST

Hröð frumköst er oft framkvæmd þannig að staða allra leikmanna er ekki “alveg rétt”.  Dómurum er uppálagt að vera alltaf tilbúnir að flauta þegar leikmaðurinn sem á að taka kastið er tilbúinn með boltann á réttum stað.  Varðandi “réttann stað” þá eiga dómarar ekki að hugsa um millimetra heldur sentimetra og frávik sem nema allt að hálfum metra fyrir aftann miðlínu eiginn vallarhelmings verða samþykkt.

FYRRI HLUTI MÓTS Í LAGI

3.             “ÓDÝR” FRÍKÖST

Borið hefur á því að sum pör hafa stundum verið að dæma of mörg ódýr fríköst í stað þess að leyfa leiknum að “fljóta”.  Þarna er oft hárfín lína á milli þess hvort átti að dæma fríkast eða ekki og oft er sóknarmaðurinn jafn brotlegur og varnarmaðurinn, en hann hefur verið látinn njóta vafans.  Í leikjum, þar sem mikillar hörku gætir, má búast við að til verði fleiri ódýr fríköst þar sem dómararnir reyna að ná betri stjórn með því að flauta fyrr.

FYRRI HLUTI MÓTS MÆTTI VERA BETRI.

4.             SÓKNARBROT

Í samanburði við alþjóðlega dómgæslu erum við að dæma of fá sóknarbrot á Íslandi og réttur varnarmanna er ekki nægilega virtur.  Dómurum hefur verið uppálagt hugleiða betur rétt varnarmanna.

FYRRI HLUTI MÓTS EKKI NÓGU GÓÐUR

5.             SKIPTIMANNASVÆÐI

Starfsmenn mega sinna sínum störfum og þurfa ekki alltaf að sitja.  Sama gildir um leikmenn sem eru að hita upp fyrir aftann bekk.  Starfsmenn og leikmenn mega hvetja sitt lið frá skiptimannasvæði, en um leið og tjáning þeirra beinist gegn dómurum, hvort sem er í orði eða með líkamstjáningu sem sýnir að dómari sé ekki, eða hafi ekki verið að gera “rétt”, þá skulu dómarar grípa inn í og beita stighækkandi refsingu.  “Eðlilega” augnabliksóánægju og/eða –reiði eiga dómarar að láta óátalda og túlkast sem “hluti af leiknum” en um leið og teygjist á henni og haldið er áfram að sýna hana þá skulu dómarar grípa inn í.

FYRRI HLUTI MÓTS ALLS EKKI NÓGU GÓÐUR OG KALLAR Á BREYTINGU Á ÞESSARRI ÁHERSLU VEGNA ÞESS AÐ ÞJÁLFARAR, DÓMARAR OG EFTIRLITSMENN RÁÐA EKKI VIÐ AUKIÐ FRJÁLSRÆÐI Á SKIPTIMANNASVÆÐI.

BREYTING Á ÁHERSLUStarfsmenn skulu sitja á skiptimannabekk og eingöngu einn starfsmaður má standa hverju sinni þurfi hann að sinna leikmönnum eða koma skilaboðum til sinna manna.  Leikmenn skulu sitja allann tímann og mega eingöngu standa þegar þeir eru að hita fyrir aftan bekk eða skipta við annann leikmann.  Starfsmenn og leikmenn mega hvetja sitt lið frá skiptimannasvæði, en um leið og tjáning þeirra beinist gegn dómurum eða að áhorfendum, hvort sem er í orði eða með líkamstjáningu sem sýnir að dómari sé ekki, eða hafi ekki verið að gera “rétt”, þá skulu dómarar grípa inn í og beita stighækkandi refsingu. 

Dómaranefnd leggur mikla áherslu á að eftir þessu verði farið og mun fylgjast með dómurum og eftirlitsmönnum til að sjá til þess að þessarri nýju áherslu verði beitt.

6.             SAMRÆMING Í VÍTAKÖSTUM

NÝ ÁHERSLA

Samræming í vítaköstum hefur ekki verið nógu góð það sem af er tímabili.  Túlkun á upplögðu marktækifæri og beiting hagnaðarreglu þegar um upplagt marktækifæri hefur verið að ræða hefur ekki verið nógu markviss.  Þegar hagnaðarreglu er beitt þá má alls ekki beita henni þannig að leikmenn fái tvöfaldan sjéns.  Alltaf skal beita hagnaðarreglu hafi leikmaður minnsta möguleika á að láta rætast úr kasti í upplögðu marktækifæri á löglegan hátt og ef brotið er á honum samtímis þá skal dæma vítakast ef hann skorar ekki úr færinu.  Dómarar þurfa einnig að vera nákvæmari á hvenær leikmenn eru að verjast á markteig eða utan hans.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Dómaranefnd HSÍ

Höfundur

Guðjón Leifur Sigurðsson
Guðjón Leifur Sigurðsson
Höfundur er formaður dómaranefndar HSÍ, fyrrverandi dómari eftir 32 ár, þar af 15 ár alþjóðadómari, núverandi eftirlitsmaður HSÍ og EHF, rafmagnsiðnfræðingur með lýsingarhönnun sem sérsvið, giftur síðan 1976, faðir tveggja dætra og afi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Þrekpróf 2007

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband