Færsluflokkur: Íþróttir

Áherslur dómaranefndar

 

ÁHERSLUR KEPPNISTÍMABILSINS
2007-2008

•1.             VÍTI + STIGHÆKKANDI REFSING

Stighækkandi refsingu, oftast 2ja mín brottvísun, er of oft beitt þegar vítaköst eru dæmd á lið.  Dómarar þurfa að taka meira tillit til þess hvort verið er að reyna að ná bolta eða hvort engin tilraun er gerð til þess og meta stighækkandi refsingu út frá því.  Sá dómari sem dæmir vítið skal að öllu jöfnu ákveða hvort einnig skuli beita stighækkandi refsingu.

FYRRI HLUTI MÓTS Í LAGI

•2.             HRÖÐ FRUMKÖST

Hröð frumköst er oft framkvæmd þannig að staða allra leikmanna er ekki "alveg rétt".  Dómurum er uppálagt að vera alltaf tilbúnir að flauta þegar leikmaðurinn sem á að taka kastið er tilbúinn með boltann á réttum stað.  Varðandi "réttann stað" þá eiga dómarar ekki að hugsa um millimetra heldur sentimetra og frávik sem nema allt að hálfum metra fyrir aftann miðlínu eiginn vallarhelmings verða samþykkt.

FYRRI HLUTI MÓTS Í LAGI

•3.             "ÓDÝR" FRÍKÖST

Borið hefur á því að sum pör hafa stundum verið að dæma of mörg ódýr fríköst í stað þess að leyfa leiknum að "fljóta".  Þarna er oft hárfín lína á milli þess hvort átti að dæma fríkast eða ekki og oft er sóknarmaðurinn jafn brotlegur og varnarmaðurinn, en hann hefur verið látinn njóta vafans.  Í leikjum, þar sem mikillar hörku gætir, má búast við að til verði fleiri ódýr fríköst þar sem dómararnir reyna að ná betri stjórn með því að flauta fyrr.

FYRRI HLUTI MÓTS MÆTTI VERA BETRI.

•4.             SÓKNARBROT

Í samanburði við alþjóðlega dómgæslu erum við að dæma of fá sóknarbrot á Íslandi og réttur varnarmanna er ekki nægilega virtur.  Dómurum hefur verið uppálagt hugleiða betur rétt varnarmanna.

FYRRI HLUTI MÓTS EKKI NÓGU GÓÐUR


•5.             SKIPTIMANNASVÆÐI

Starfsmenn mega sinna sínum störfum og þurfa ekki alltaf að sitja.  Sama gildir um leikmenn sem eru að hita upp fyrir aftann bekk.  Starfsmenn og leikmenn mega hvetja sitt lið frá skiptimannasvæði, en um leið og tjáning þeirra beinist gegn dómurum, hvort sem er í orði eða með líkamstjáningu sem sýnir að dómari sé ekki, eða hafi ekki verið að gera "rétt", þá skulu dómarar grípa inn í og beita stighækkandi refsingu.  "Eðlilega" augnabliksóánægju og/eða -reiði eiga dómarar að láta óátalda og túlkast sem "hluti af leiknum" en um leið og teygjist á henni og haldið er áfram að sýna hana þá skulu dómarar grípa inn í.

FYRRI HLUTI MÓTS ALLS EKKI NÓGU GÓÐUR OG KALLAR Á BREYTINGU Á ÞESSARRI ÁHERSLU VEGNA ÞESS AÐ ÞJÁLFARAR, DÓMARAR OG EFTIRLITSMENN RÁÐA EKKI VIÐ AUKIÐ FRJÁLSRÆÐI Á SKIPTIMANNASVÆÐI.

BREYTING Á ÁHERSLU

Starfsmenn skulu sitja á skiptimannabekk og eingöngu einn starfsmaður má standa hverju sinni þurfi hann að sinna leikmönnum eða koma skilaboðum til sinna manna.  Leikmenn skulu sitja allann tímann og mega eingöngu standa þegar þeir eru að hita fyrir aftan bekk eða skipta við annann leikmann.  Starfsmenn og leikmenn mega hvetja sitt lið frá skiptimannasvæði, en um leið og tjáning þeirra beinist gegn dómurum eða að áhorfendum, hvort sem er í orði eða með líkamstjáningu sem sýnir að dómari sé ekki, eða hafi ekki verið að gera "rétt", þá skulu dómarar grípa inn í og beita stighækkandi refsingu. 

Dómaranefnd leggur mikla áherslu á að eftir þessu verði farið og mun fylgjast með dómurum og eftirlitsmönnum til að sjá til þess að þessarri nýju áherslu verði beitt.

•6.             SAMRÆMING Í VÍTAKÖSTUM

NÝ ÁHERSLA

Samræming í vítaköstum hefur ekki verið nógu góð það sem af er tímabili.  Túlkun á upplögðu marktækifæri og beiting hagnaðarreglu þegar um upplagt marktækifæri hefur verið að ræða hefur ekki verið nógu markviss.  Þegar hagnaðarreglu er beitt þá má alls ekki beita henni þannig að leikmenn fái tvöfaldan sjéns.  Alltaf skal beita hagnaðarreglu hafi leikmaður minnsta möguleika á að láta rætast úr kasti í upplögðu marktækifæri á löglegan hátt og ef brotið er á honum samtímis þá skal dæma vítakast ef hann skorar ekki úr færinu.  Dómarar þurfa einnig að vera nákvæmari á hvenær leikmenn eru að verjast á markteig eða utan hans.

 


Dómarafundurinn

Dómarafundurinn um helgina gekk vel.  Nokkur veikindi voru þó og komust þar af leiðandi ekki allir í þrekprófið auk þess sem Anton og Hlynur voru í Færeyjum að dæma.  20 dómarar þreyttu þrekpróf og stóðust það allir nema 1 sem var alveg á mörkunum að klára innan tímaramma. Í skriflega prófinu voru misjafnar niðurstöður og þurfa nokkrir að fara í upprifjun innan skamms.  Lagðar voru nýjar áherslur fyrir dómarana til að fara eftir nú á seinni hluta tímabilsins og ber þar hæst að áherslur á skiptimannasvæði hafa breyst og gilda nú strangari reglur þar en áður. 

Gunnar Magnússon þjálfari hjá HK útvegaði okkur DVD með sóknarbrotum, vítum og 2ja mínútna brottvísunum sem við notuðum til að fara yfir og til að samræma dómgæsluna.  Við viljum færa Gunnari okkar bestu þakkir fyrir. 

Samhliða dómarafundinum var haldið Landsdómaranámskeið þar sem átta manns tóku þátt og þar af ein stúlka sem er mikið fagnaðarefni fyrir okkur.  Við bindum miklar vonir við nýju landsdómaraefnin en þau eiga eftir að taka verklega prófið áður en við getum farið að nota þau að fullu.


Janúarfundur dómara, landsdómaraefna og eftirlitsmanna

 

Fundur dómara og eftirlitsmanna
í Janúar 2008

Þrekpróf fyrir dómara verður haldið í föstudaginn 4. Janúar 2008 kl. 20:00 (mæting 19:45) í Laugardalshöll (gengið inn bakvið nýju höllina).  Hlaupið verður “Cooper test” þar sem hlaupið verður í 12 mín og þurfa allir þátttakendur að ljúka að minnsta kosti 2.400m á þeim tíma.Fundur verður haldinn laugardaginn 5. janúar í fundarsal ÍSÍ á 2. hæð í Laugardal og fundartími verður frá 10:00-14:00 Dagskrá:10:00    Áherslur í dómgæslu vetrarins
10:30    Aganefnd – Útfylling skýrslna

10:45    Mótanefnd – Umgjörð leikja
11:00    Eftirlit – Störf eftirlitsmanna
11:15    Hlé
11:20    Skriflegt próf – 30 spurningar

12:00    Matarhlé – Samlokur í boði HSÍ

12:30    HDSÍ
12:45    Yfirferð á skriflegu prófi
13:00    DVD sýning – 2 mín – sóknarbrot - víti
14:00    Fundi lýkur

 


Hroki og hleypidómar

Dómarar hafa oft verið sakaðir um hroka og hleypidóma (fordóma) þegar þeir þurfa að taka afdrifaríkar og óvinsælar ákvarðanir.  Í þeim tilfellum kemur það til af því að þeir þurfa að sýna sig og lenda augnablik í aðalhlutverki og oftar en ekki er kanski líkamstjáningin þannig að þeir sýnist hrokafullir.  Dómarar hafa verið sakaðir um fordóma í garð þeirra útlendinga sem hér spila og að þeir fái ekki sömu tækifæri og íslensku leikmennirnir.  Ekkert er dómurum fjarri og að þeir skuli vera sakaðir um slíkt sýnir eingöngu ráðaleysi og rökþrot viðkomandi aðila að láta sér detta slíkt í hug. 

Undanfarinn ár hafa komið hingað margir frábærir leikmenn bæði í karla- og kvennaflokki og íslenskir leikmenn og þjálfarar hafa líka verið að koma til baka úr atvinnumennsku.  Á síðustu árum hefur öðru hvoru borið á því að fyrrum atvinnumenn á erlendri grund hafa komið heim aftur, uppfullir af skoðunum og hugmyndum um hvað allt sé betra erlendis og að þeir þurfi nú að kenna þessum íslensku dómurum sitt lítið af hverju.  Þetta hefur gerst í vetur og þetta mun gerast aftur á þessu tímabili.  Eina leiðbeiningin sem við getum gefið dómurunum er að þeir verða að þora að taka erfiðar ákvarðanir, vera samkvæmir sjálfum sér og hika ekki við að beita þeim vopnum sem þeir hafa í krafti síns embættis fyrir leik, í leiknum sjálfum og eftir leik.  Því miður hafa þeir ekki verið nógu duglegir að beita þessum vopnum, stundum vegna þess að þeir eru óviðbúnir slíkri gagnrýni og stundum vegna þess að þeir trúa ekki eiginn eyrum þegar viðkomandi lætur slíkt uppi.  Það má kanski segja að í slíkum tilvikum séum við "barnalegir", en við viljum trúa á hið góða í hverjum manni og erum ekki nógu harðsvíraðir til að gjalda líku líkt.  Ég tel það ennþá vera kost en ekki löst en það sýnir bara  hvað ég er "barnalegur" og ég þarf væntanlega endurskoða þá hugmyndafræði í harðnandi heimi.


Umgjörð leikja

Það sýndi sig í úrslitaleik deildarbikars karla að þrátt fyrir glæsilega umgjörð og góðan leik að þá er hægt að gera mistök sem draga dilk á eftir sér.  Í úrslitaleiknum voru bestu liðin, bestu dómararnir, þrælvanir og reyndir tímavörður og ritari og margreyndur eftirlitsmaður með áratuga reynslu í dómgæslu.  Mistök sem hér um ræðir áttu sér stað snemma leiks og þrátt fyrir að upp hafi komið vafi hjá starfsmönnum leiksins um líkt leyti og þau áttu sér stað, þá kom í ljós þegar þeir báru sig saman að allt stemmdi hjá þeim innbyrðis og töldu þeir sig því vera að gera allt rétt.  Mistökin koma ekki í ljós fyrr en farið er að skoða leikinn síðar um kvöldið því starfsmennirnir vildu fullvissa sig um að þeir hefðu gert rétt.  Þarna er um mannleg mistök að ræða og vont þegar það gerist í umgjörð leiksins en mistök eins og þessi eru til að læra af þeim og það munum við svo sannarlega gera. 

Deildarbikarkeppnin

Deildarbikarkeppni með nýju sniði byrjar á morgun og lýkur á laugardag.  Þarna gefst handknattleiksunnendum kærkomið tækifæri til að sjá skemmtilega keppni á milli jóla og nýárs.  Þessi keppni fyllir upp í ákveðna eyðu sem skapast á þessum tíma.  Við ætlum að nýta okkur þessa keppni til að samræma störf okkar eftirlitsmanna og mat okkar á frammistöðu dómara.  Sex pör fá tækifæri til að dæma þessa leiki undir vökulum augum eftirlitsmanna og ég efast ekki um að við getum síðan nýtt okkur það á dómarafundi sem haldinn verður í byrjun janúar.

Móta-, dómara- og aganefnd ætla líka að funda saman á morgun til að samræma sín störf varðandi umgjörð leikja og frekara samstarf þar að lútandi.


Niðurröðun dómara á leiki

Mér hafa að undanförnu borist fyrirspurnir af hverju þessi og hinn dómarinn séu settir á þennan og þennan leik.  Oftast er það þannig að stuðst er við mat eftirlitsmanna á dómgæslunni það sem af er vetri og síðan er reynt að láta pörin fá verkefni í samræmi við það.  Auðvitað er samkeppni meðal dómara um að standa sig vel og fá "stærri" leiki og þannig á kerfið að vera - eins og hjá leikmönnum "að komast í liðið".  Því miður hefur það oft verið svo í vetur að dómarar hafa forfallast af ýmsum ástæðum og stundum er erfitt að manna leikkvöld, tala nú ekki um þegar sex leikir eru sama kvöldið.  Í dag eigum við 26 landsdómara sem eru tilbúnir að dæma.  Nítján af þeim mynda níu pör sem við treystum 100% til að dæma leiki í N1 deild karla og kvenna.  Margir dómarar koma frá sama félagi og treysta sér ekki til að dæma leiki þess félags.  Oft er það svo að fyrir leikkvöld þá stöndum við uppi með nöfn um það bil helmings dómarana sem geta dæmt og þar af kannski 4-5 heil pör.  Við byrjum að sjálfsögðu að velja úr þeim hópi og notum svo blönduð pör í leiki eftir aðstæðum.  Blönduð pör hafa oft reynst vel en þá þarf helst að hafa einn reyndan með öðrum yngri.  Það þarf líka að gæta þess að sömu dómarar séu ekki alltaf hjá sömu félögum og svo þarf að gæta jafnræðis í fjölda leikja ef hægt er.  Þó við vildum helst alltaf nota "bestu" pörin þá má ekki ofgera þeim og láta þá fá leið á dómgæslunni.  Það er vandasamt að raða á leiki og þegar það er gert af metnaði fer talsverður tími í það.  Þungi þessarrar vinnu hefur verið á Ólafi Erni Haraldssyni og eiga hann og Róbert Gíslason á HSÍ þakkir skyldar fyrir þolinmæði og þrautseigju við að raða og útvega dómara á leiki.  Endanlegt val á dómurum á einstaka leiki er að sjálfsögðu á ábyrgð dómaranefndar í heild sinni en hafi menn athugasemdir við hana þá mun ég, sem formaður, svara þeim athugasemdum.

Getur lið misst boltann fyrir að taka of langt leikhlé?

Nei. 

Þessi spurning kom upp um daginn þegar gagnrýnt var að lið Fram í kvennaflokki hefði tekið of langt liðs-leikhlé við lok leiksins.  Dómarar geta aftur á móti metið slík atvik sem óíþróttamannlega framkomu (stighækkandi refsing) ef það dregst úr hófi að koma leik í gang aftur vegna þess að annað liðið sinnir ekki fyrirmælum dómara um að hefja leik.  Þá skiptir ekki máli hvort liðið á í hlut, en ekki er hægt að taka boltann af því liði sem hefur hann við leikstöðvun þrátt fyrir 2ja mínútna brottvísun á viðkomandi lið.

Komi lið of seint til leiks eftir leikhlé við lok fyrri hálfleiks þá má beita stighækkandi refsingu á starfsmann A.  Hafi það lið átt að byrja með boltann í seinni hálfleik þá er ekki hægt að taka þann rétt af liðinu þrátt fyrir stighækkandi refsingu (áminningu - 2 mín - útilokun).


Landsdómaranámskeið

Helgina 4.-6. janúar 2008 verður haldið landsdómaranámskeið í Reykjavík. Námskeiðið verður haldið í tengslum við fund deildardómara sem verður haldinn sömu helgina. Til að geta orðið landsdómarar þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

10.2.4. Réttindi sem landsdómarar öðlast menn með prófi að afloknu námskeiði, sem haldið er af dómaranefnd HSÍ Til þess að ná réttindum sem landsdómari skal eftirtöldum skilyrðum fullnægt: Dómaraefni skal vera að minnsta kosti 19 ára á almanaksárinu og hafa A-stigs réttindi Dómaraefni skal standast þríþætt próf, skriflegt, verklegt og líkamlegt og skulu þessi próf vera í samræmi við EHF/IHF próf á hverjum tíma. Landsdómarar hafa réttindi til að dæma alla leiki á Íslandi aðra en þá sem þarf alþjóðaréttindi til og með eftirtöldum takmörkunum: Hámarksaldur dómara í efstu deildum karla og kvenna, skal vera þegar dómari hefur náð 55 ára aldri. Eftir 55 ára aldri er náð hafa þeir rétt til að dæma í öðrum deildum og flokkum karla og kvenna, ef dómari hefur staðist þau próf, sem lögð eru fyrir af Dómararnefnd HSÍ á hverjum tíma. Hámarksaldur eftirlitsmanna skal vera þegar eftirlitsmaður hefur náð 68 ára aldri. Miða skal við 1. ágúst á því ári sem tilnefning á sér stað. Dómaranefnd getur veitt undanþágu frá þessum aldurstakmörkunum, standi sérstaklega á.

Ég vil hvetja sem flesta til að mæta og spreyta sig á að ná lengra í dómgæslu því það eru mörg spennandi tækifæri framundan

Gagnrýni á dómara - Kominn langt út fyrir eðlileg mörk!

Hvað veldur að þjálfari sakar hreyfinguna um spillingu? Af hverju að draga persónur og einkamál inn í umræðu um dómgæslu? Af hverju að halda slíkum meiningum til streitu og bæta í löngu eftir að leik lauk? Af hverju styður félagið þjálfarann og kærir leikinn? Á hvaða forsendum er kæran byggð? Lélegri dómgæslu eða að dómarinn er sagður besti vinur þjálfarans? Er svona framkoma góð fyrir ímynd handboltans?

Ég get haldið áfram að spyrja svona spurninga og samt mun ég seint skilja hvað Aðalsteini gengur til með þessum leik. Hann er nýbúinn að segja mér að hann sé mjög sáttur við það sem af er tímabili þó laga mætti eitt og eitt atriði. Ég hélt að við værum að vinna í þessum málum á sameiginlegum forsendum. Hann hefur ekki upplýst okkur, frekar en nokkur annarr þjálfari, um vinatengsl og óhæfi einstakra dómara á þeim forsendum. Þessi umræða er kominn langt út fyrir eðlileg mörk og menn verða að taka afleiðingunum af því. Ég fagna því hvernig stjórn HSÍ hefur tekið á málinu og er sannfærður um að þó að einn sauður villist af leið þá getum við hin haldið réttum kúrs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Dómaranefnd HSÍ

Höfundur

Guðjón Leifur Sigurðsson
Guðjón Leifur Sigurðsson
Höfundur er formaður dómaranefndar HSÍ, fyrrverandi dómari eftir 32 ár, þar af 15 ár alþjóðadómari, núverandi eftirlitsmaður HSÍ og EHF, rafmagnsiðnfræðingur með lýsingarhönnun sem sérsvið, giftur síðan 1976, faðir tveggja dætra og afi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Þrekpróf 2007

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband