28.12.2008 | 12:37
Að koma sér upp þykkum skráp
Ég sá þrjá af fjórum leikjum í deildarbikarkeppninni í gær og varð ekki fyrir vonbrigðum með handboltann sem þar var sýndur þó liðin væru mislengi í gang eftir steik og hvíld. Allir leikirnir höfðu sinn sjarma, miklar sveiflur, drama, mistök (nóg af þeim) og glæsileg mörk.
Mínir menn stóðu sig misvel, eins og gengur, og þurftu ekki bara að takast á við hefðbundinn leikbrot heldur þurftu þeir líka að kljást við sagnfræði og fordóma. Þegar svo er komið þá minnkar sjáfstraust manna og þegar barið er á því í sextíu mínútur án nokkurrar miskunnar þá getur ekki farið vel. Auðvitað þurfa dómarar að hafa þykkan skráp til að standa af sér allar "vitsugurnar" en stundum bresta þær varnir og þá þarf að byggja þær upp aftur.
Við eigum 6-8 pör sem geta dæmt leiki í N1 deild karla og við megum ekki við því að missa neitt þeirra. Það er erfitt að dæma oft hjá sömu liðunum en það er óhjákvæmilegt þegar við eigum ekki fleiri pör. Við megum því ekki vera að "nudda" og rifja upp alla "slæmu" leikina hjá viðkomandi pari áður en leikur hefst og komast ekki upp úr farinu "manstu í síðasta leik þegar.........." þannig að dómararnir fá ekki einu sinni tækifæri til að tileinka sér að það er kominn nýr leikur sem þeir þurfa að einbeita sér að. Það hefur aldrei verið talinn góð "lenska" hjá íþróttamönnum að vera alltaf að velta sér upp úr mistökum í síðasta leik og því ættu þeir þá að vera velta dómurunum upp úr þeim? Er það til að æsa þá upp og gera þá andsnúna sér? Eða er það aðeins "vinaleg" ábending til þeirra til að minna þá á að þeir hafi ekkert lært frá því í síðasta leik? Látum nú af þessum ósið og gefið mínum mönnum sjéns á að vinna vinnuna sína án stöðugs áreitis því dómgæslan batnar örugglega ekki við það.
Við eigum í dag fjögur lið í N1 deild karla sem eru til fyrirmyndar varðandi stjórnun bekkja og framkomu við dómara. Þau eru gagnrýnin en beita henni á réttan hátt í leikjum og eftir þá. Þessi lið vita líka að þau fá engu breytt um það sem búið er að gera á leikvellinum og einbeita sér þess í stað að því sem framundan er, þannig að orkan og "vitið" fari í leikinn í stað þess að beina því að dómurunum.
Látum það nú verða okkar áramótaheit að búa til fleiri dómara og hlúa betur að þeim. Það er gaman og gefandi að vera dómari þegar skrápurinn er kominn á sinn stað en við þurfum líka að gefa hinum tækifæri til að búa hann til.
Um bloggið
Dómaranefnd HSÍ
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.