Færsluflokkur: Íþróttir
11.10.2007 | 14:34
Tjáningarfrelsi
Á heimasíðu HSÍ er þess getið að þjálfari í N1 deild karla hafi fengið áminningu fyrir ummæli í garð dómara. Ummæli þessi birtust í Fréttablaðinu sl. föstudag og voru ekki á þann veg að þau væru í anda íþróttarinnar. Þrátt fyrir að þjálfarar séu ekki ánægðir með frammistöðu dómara í einstökum leikjum þá hafa þeir önnur úrræði en að tjá sig um það við blaðamenn. Allir þjálfarar vita að það er gott að láta líða einhvern tíma eftir leik áður en þeir fara að tjá sig og oftast á þann veg að þeir sjá eftir því þegar þeir hafa séð að sér. Ég mæli með því að þjálfararnir beini ummælum sínum (og reiði) til dómaranefndar - þeir hafa form til að senda okkur athugasemdir. Dómaranefnd mun hlusta á allt sem þjálfarar hafa fram að færa en hún mun ekki taka því sem sjálfsögðum hlut ef opinberlega er vegið ósæmilega að dómurum og mun beita sér fyrir því að hreyfinginn taki á þeim málum.
Það sem vakti þó einna helst athygli mína eftir þennan leik, voru misjöfn efnistök sem fjölmiðlarnir MBL og Fréttablaðið beittu. Meðan Fréttablaðið leyfði þjálfara heimaliðsins (sem tapaði) að láta gamminn geysa þá þótti MBL sérstök ástæða að halda því á lofti hvað þjálfari aðkomuliðsins var pollrólegur allann leikinn. MBL nefndi ekki að þjálfari heimaliðsins hefði verið óánægður með dómgæsluna, en hann hefði aftur á móti látið ófriðlega á bekknum. Dómaranefnd var með fulltrúa upp í pöllum sem gaf dómurunum góða einkunn að öðru leyti en því að þeir leyfðu þjálfara heimaliðsins að ganga of langt í hegðun sinni á bekknum. Dómararnir vita þetta og þeir fá bágt fyrir hjá dómaranefnd ef þeir taka ekki á þessum málum sem var einn af áherslupunktum okkar fyrir veturinn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.10.2007 | 21:42
Erfitt verkefni hjá Antoni og Hlyn
Nú um helgina eiga Anton og Hlynur mjög erfitt verkefni fyrir höndum en þeir eiga að dæma leik:
2007/08 Men's European Cup , Champions League |
07.10.2007 17:45 Zagreb /CRO | HC Croatia Osiguranje-Zagreb/CRO - HC Vardar PRO - Skopje/MKD |
|
Með þeim í eftirliti verður formaður dómaranefndar Evrópusambandsins. Þessi leikur er nokkurs konar "derby" viðureign tveggja liða sem bæði eiga mjög erfiða heimavelli þar sem komið hafa upp mál sem endað hafa fyrir dómstóli Evrópusambandsins. Það eru engir aukvisar settir á svona leiki svo við getum verið stolt yfir því að þeir skyldu fá þetta verkefni.
Fleiri erlend verkefni eru framundan hjá bæði dómurum og eftirlitsmönnum sem ég greini nánar frá síðar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2007 | 18:54
Hvernig gengur að aðlaga sig að breyttum áherslum?
Nú þegar búnar eru 2-3 umferðir í N1 deildum karla og kvenna höfum við farið yfir hvernig dómurum hefur tekist að aðlaga sig að breyttum áherslum. Eins og við var að búast er það misjafnt á milli para og hafa sum pörin náð þessu ansi vel. Ef þau hafa ekki náð því í fyrsta leik má greinilega sjá framfarir í næsta leik. Þetta kostar eftirfylgni frá eftirlitsmönnum og þjálfarar hafa verið ófeimnir að tjá sig líka (eftir leik). Nú þegar lögbundnu eftirliti samkvæmt reglum HSÍ er lokið (fyrstu tvær umferðir) þá verður erfiðara að fylgjast með en við reynum að gera okkar besta og mæta á sem flesta leiki.
1. VÍTI + STIGHÆKKANDI REFSING
Hérna hefur flestum tekist mjög vel að fylgja línunni, þ.e. að láta ekki stighækkandi refsingu fylgja sjálfkrafa þó dæmt sé víti. Annað vandamál hefur þó komið upp og það er ósamræmi í vítaákvörðunum í sama leik sem þarf að laga.
2. HRÖÐ FRUMKÖST
Hér hafa enginn vandamál orðið en liðin eru þó ekki að beita þessu mikið.
3. ÓDÝR FRÍKÖST
Hér erum við enn í smá vandamálum og virðist pörunum ganga misvel að fóta í þessu en þó má sjá greinilegar framfarir hjá þeim pörum sem dæmdu full mikið af ódýrum fríköstum í fyrra.
4. SÓKNARBROT
Hér þurfum við að bæta okkur og flestir dómararnir eru að dæma of fá sóknarbrot ennþá. Það má þó sjá að hugleiðingarnar eru til staðar og við náum þessu betur á endanum.
5. SKIPTIMANNASVÆÐI
Hér hafa ekki verið nein sérstök vandamál og eru flest liðin að sýna skemmtilega stemmingu á bekkjunum. Þó eru til þjálfarar sem ekki eru alveg tilbúnir og vilja dæma heilu og hálfu leikina og senda dómurunum óspart tóninn um hvað betur mætti fara. Hér verða þeir að gera upp við sig hvoru hlutverkinu þeir vilja sinna og þeir eru velkomnir í okkar hóp ef þeir vilja skipta um hlutverk. Nú á meðan eftirlitsmenn hafa verið á leikjum þá hafa þeir gripið nokkrum sinnum inn í án þess að dómararnir væru að skipta sér af bekknum en búast má við að refsingum fjölgi þegar eftirlitsmennirnir eru ekki á borðinu til að hjálpa til við að hemja bekkinn. Dómarar gera mistök (rétt eins og leikmenn og þjálfarar) og því fyrr sem allir sætta sig við það verður allt auðveldara.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2007 | 11:55
Dómara vantar
Til stendur að halda dómaranámskeið nú á næstunni og hvetjum við alla sem hafa áhuga á að dæma í efstu deildum til að hafa samband við okkur með því að senda póst á domaranefnd@hsi.is Hafi menn áhuga á að sjá hvað greitt er fyrir leikina má finna það á http://www.hsi.is/upload/files/gjald.xls
Staðan í dag er sú að við eigum 9 1/2 par (19 karla) til að dæma alla leiki í efstu deildum og það geta allir séð að það má ekki mikið útaf bregða til að allt fari í óefni. Þessi hópur sem nú starfar leggur á sig mikið óeigingjarnt starf til að sinna dómgæslunni í mjög kröfuhörðu umhverfi og til að létta undir með þeim þurfum við fleiri sem vilja takast á við slíkar áskoranir. Ég hef ekki farið leynt með það að ég vil fá konur til að dæma og skora á þær sem hafa áhuga að senda okkur línu.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2007 | 11:02
domaranefnd@hsi.is
Dómaranefnd HSÍ hefur opnað pósthólf, domaranefnd@hsi.is, þangað sem allar skýrslur varðandi frammistöðu dómara verða sendar frá eftirlitsmönnum. Þetta er einnig kjörinn vettvangur fyrir þá sem vilja senda dómaranefndinni erindi eða spurningar um það sem viðkemur leikreglum og fleira. Við munum reyna að svara erindum eins fljótt og kostur er og treystum ykkur til að vera málefnaleg í ykkar skrifum. Ef ástæða er til og málefnið á erindi til allra þá munum við svara því á blogginu.
Ég er staddur í Kaupmannahöfn og missti því af fyrstu leikjum Íslandsmótsins. Næstu viku verð ég í Rúmeníu en kem heim á föstudagskvöldið og næ því að fylgjast með leikjum á laugardag og sunnudag 22. og 23. september.
Eftir því sem ég hef frétt frá mínum mönnum að heiman þá hefur allt farið vel fram og allir kappkosta að standa sig sem best eins og við var að búast.
Bestu kveðjur frá Köpen
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2007 | 18:47
Áherslur í upphafi tímabils
Dómaranefnd hefur gefið út 5 áherslur í upphafi tímabils og sent öllum dómurum, þjálfurum, eftirlitsmönnum og fjölmiðlum. Áherslurnar eru eftirfarandi:
1 VÍTI + STIGHÆKKANDI REFSING
Stighækkandi refsingu, oftast 2ja mín brottvísun, er of oft beitt þegar vítaköst eru dæmd á lið. Dómarar þurfa að taka meira tillit til þess hvort verið er að reyna að ná bolta eða hvort engin tilraun er gerð til þess og meta stighækkandi refsingu út frá því. Sá dómari sem dæmir vítið skal að öllu jöfnu ákveða hvort einnig skuli beita stighækkandi refsingu.
2. HRÖÐ FRUMKÖST
Hröð frumköst er oft framkvæmd þannig að staða allra leikmanna er ekki alveg rétt. Dómurum er uppálagt að vera alltaf tilbúnir að flauta þegar leikmaðurinn sem á að taka kastið er tilbúinn með boltann á réttum stað. Varðandi réttann stað þá eiga dómarar ekki að hugsa um millimetra heldur sentimetra og frávik sem nema allt að hálfum metra fyrir aftann miðlínu eiginn vallarhelmings verða samþykkt.
3. ÓDÝR FRÍKÖST
Borið hefur á því að sum pör hafa stundum verið að dæma of mörg ódýr fríköst í stað þess að leyfa leiknum að fljóta. Þarna er oft hárfín lína á milli þess hvort átti að dæma fríkast eða ekki og oft er sóknarmaðurinn jafn brotlegur og varnarmaðurinn, en hann hefur verið látinn njóta vafans. Í leikjum, þar sem mikillar hörku gætir, má búast við að til verði fleiri ódýr fríköst þar sem dómararnir reyna að ná betri stjórn með því að flauta fyrr.
4. SÓKNARBROT
Í samanburði við alþjóðlega dómgæslu erum við að dæma of fá sóknarbrot á Íslandi og réttur varnarmanna er ekki nægilega virtur. Dómurum hefur verið uppálagt hugleiða betur rétt varnarmanna.
5. SKIPTIMANNASVÆÐI
Starfsmenn mega sinna sínum störfum og þurfa ekki alltaf að sitja. Sama gildir um leikmenn sem eru að hita upp fyrir aftann bekk. Starfsmenn og leikmenn mega hvetja sitt lið frá skiptimannasvæði, en um leið og tjáning þeirra beinist gegn dómurum, hvort sem er í orði eða með líkamstjáningu sem sýnir að dómari sé ekki, eða hafi ekki verið að gera rétt, þá skulu dómarar grípa inn í og beita stighækkandi refsingu. Eðlilega augnabliksóánægju og/eða reiði eiga dómarar að láta óátalda og túlkast sem hluti af leiknum en um leið og teygjist á henni og haldið er áfram að sýna hana þá skulu dómarar grípa inn í.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 11:21
Reglulegar reglukannanir
Til að kanna reglukunnáttu landans í handboltafræðum verða settar upp skoðanakannanir með spurningum og svörum sem alþjóða handknattleikssambandið hefur samið og gefið út. Reglukunnátta dómara er könnuð tvisvar á ári með því að láta þá svara 30 spurningum þar sem eitt eða fleiri svör geta verið rétt. Í gær voru þeir prófaðir og svöruðu þeir allir spurningunni í núverandi skoðanakönnun rétt og var hún ein af þremur sem allir svöruðu rétt.
Dómararnir stóðu sig mjög vel í regluprófinu og þurfa þeir að ná 80% réttri svörun til að við séum sáttir. Meðaltalið var 81% rétt svörun þar sem 57 atriði voru rétt svar í 30 spurningum. Flestar spurningarnar höfðu aðeins eitt rétt svar af 3-4 möguleikum en ein spurninginn gaf td. fimm möguleika sem allir voru réttir. Ein spurning dró flesta niður og gaf hún aðeins 20% rétta svörun. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að sjá hvar skóinn kreppir og þarna var tekið fyrir atriði sem sjaldan sést í handbolta og menn voru greinilega ekki klárir á hvernig ætti að meðhöndla. Nú vita dómararnir það og þið verðið upplýst síðar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2007 | 22:09
Þrekprófið
Dómararnir þreyttu þrekpróf í gærkvöldi sem gekk mjög vel. Ástand þeirra nú er það besta sem sést hefur í mörg ár og gefur það góðar vonir um veturinn. Gauti Grétarsson mætti og lét dómarana hita upp fyrir hlaupið. Eftir hlaupið ræddi hann við þá um hvernig þeir ættu að halda sér í formi í vetur og mikilvægi þess að þeir séu í góðri úthaldsþjálfun við dómgæsluna. Hann ræddi einnig um mataræði og fékk það góðan hljómgrunn. Ég ætlaði að birta mynd af hópnum sem tekinn var í Laugardalshöll en vegna "tæknilegra" mistaka þá verður hún að bíða þar til eftir helgi.
Við héldum síðan fund í dag sem ég geri sérstök skil á morgun.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2007 | 00:08
Aðvörun - Ekki réttar leikreglur á netinu
Ég uppgötvaði þegar ég var að útbúa skriflega prófið fyrir dómara og eftirlitsmenn að ég átti ekki nýjustu leikreglurnar á íslensku og fór því á netið www.hsi.is til að ná í þær. Þá tók ég eftir því að þær eru frá því í ágúst 2001 en nýjar leikreglur voru gefnar út í ágúst 2005. Þarna eru þó frábærar skýringar á íslensku á breytingum á leikreglum 2005 og ef maður les þær saman við gömlu leikreglurnar þá nær maður réttum áttum. Ég á reglurnar á ensku og það má nálgast þær á heimasíðum EHF og IHF. Nú þarf að skoða hvort ekki er skynsamlegt að þýða þær yfir á íslensku, þó það sé talsverð vinna, en þó má búast við að flestir skilji enskuna. Við skoðum málið.
Rétta svarið við spurningu úr síðustu færslu er C.
Ég þarf að læra að setja upp skoðanakönnun svo þið getið svarað á netinu. Það er alltaf fróðlegt að sjá hvernig staðan er
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2007 | 22:26
Eru reglurnar á hreinu?
Í leik Fram og Vals í kvennaflokki á R-Open gerðist umdeilt atvik sem olli talsverðum æsing hjá stuðningsmönnum annars liðsins. Atvikið var nokkurn veginn á þessa leið;
Leikmaður liðs A á skiptimannabekk mótmælir dómi og fær 2ja mínútna brottvísun og í framhaldi af því mótmælir starfsmaður liðs A þeim dómi og fær einnig 2ja mín brottvísun. Áður en leikurinn hefst aftur mótmælir sami starfsmaður á ný og fær útilokun. Hver er rétt ákvörðun dómara?
a) 3 leikmenn verða að yfirgefa leikvöllinn í 2 mín hverb) 1 leikmaður verður að yfirgefa leikvöllinn í 4 mín og 1 leikmaður í 2 mínc) Fækkað er í liðinu um 2 leikmenn í 2 mín
Rétt svar á morgun.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Dómaranefnd HSÍ
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar